Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Aron Sig skoraði tvö og lagði upp eitt í sigri – Samúel með stoðsendingu í sigri Viking

Aron Sigurðarson skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í sigri Start í Noregi í dag.

Aron átti frábæran leik í dag. Mynd/Bergens Tidende

Aron Sigurðarson átti frábæran leik fyrir Start

Aron Sigurðarson átti stórleik fyrir Start í norsku 1. deildinni þegar liðið vann 3-2 sigur á Jerv í dag. Hann lagði upp fyrsta mark Start í leiknum og gerði sér lítið fyrir og skoraði annað og þriðja mark liðsins.

Aron fylgdi vel á eftir markvörslu á 24. mínútu og náði frákasti og tvöfaldaði forystu Start. Aron skoraði annað mark sitt rétt undir lok leiks með skallamarki eftir fyrirgjöf.

Aron spilaði allan tímann fyrir Start í dag og þá var Kristján Flóki Finnbogason í byrjunarliði liðsins en hann lék fyrstu 79. mínúturnar í leiknum. Jóhannes Harðarson stýrir Start.

Samúel Kári lagði upp

Samúel Kári Friðjónsson lagði upp eitt mark í 3-0 sigri Viking gegn Stabæk í norsku úrvalsdeildinni í dag. Samúel var í byrjunarliði Viking og lék allan leikinn.

Bæði lið byrjuðu leikinn af krafti og góð færi sköpuðust á báða bóga í fyrri hálfleiknum en fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en í byrjun síðari hálfleiks. Kristian Thorstvedt skoraði flott mark fyrir Viking á 47. mínútu þegar hann klippti boltann í mark Stabæk.

Eftir tæpan klukkutíma leik fékk Viking vítaspyrnu. Tommy Høiland fór á vítapunktinn fyrir Viking og skoraði af miklu öryggi og nokkrum mínútum lagði Samúel Kári upp mark á liðsfélaga sinn Zymer Bytyqi.

Samúel Kári og samherjar í Viking bæta stöðu sína í norsku úrvalsdeildinni með sigrinum í dag en liðið er í 6. sæti deildarinnar með 14 stig eftir átta umferðir.

Hólmbert skoraði tvö í stórsigri Álasund

Hólmbert Aron Friðjónsson átti góðan leik með Álasund í norsku 1. deildinni í dag þegar liðið fór í dag illa með Tromsdalen, 5-0, en hann skoraði tvö mörk í leiknum.

Daníel Leó Grétarsson, Aron Elís Þrándarson og Hólmbert Aron voru allir í byrjunarliði Álasund í leiknum og léku allan leikinn.

Hólmbert skoraði fyrra mark sitt úr vítaspyrnu og nokkru síðar skoraði hann aftur eftir undirbúning frá Aroni Elís.

Álasund-liðið hefur farið frábærlega af stað í norsku 1. deildinni. Liðið er taplaust og trónir á toppi deildarinnar með 22 stig, fjórum stigum meira en Sandefjord sem er í 2. sæti.

Viðar Ari í byrjunarliðinu í sigri Sandefjord

Viðar Ari Jónsson var í byrjunarliði Sandefjord í norsku 1. deildinni er liðið hrósaði 1-0 sigri á móti Skeid í dag. Viðar lék allan leikinn.

Sandafjord gerði eina mark leiksins þegar sjö mínútur lifðu leiks en liðið er áfram í 2. sæti deildarinnar með 18 stig.

Oliver ónotaður varamaður

Oliver Sigurjónsson var ónotaður varamaður hjá liði sínu Bodø/Glimt sem vann 2-1 útisigur á botnliði Tromso í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Bodø/Glimt er í 3. sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 17 stig eftir átta leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun