Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Aron Sig skoraði tvö og lagði eitt upp

Þó nokkrir Íslendingar voru í eldlínunni í Noregi í dag.

Aron Sigurðarson átti frábæran leik í dag. Mynd/Bergens Tidende

Aron Sigurðarson skoraði tvö mörk fyr­ir Start og lagði eitt upp þegar lið hans vann 3-1 sigur á Tromsdalen í norsku 1. deildinni í dag. Start komst þar með í sjötta sæti deild­ar­inn­ar og er komið upp í 22 stig eftir 12 umferðir.

Aron lék allan leikinn fyrir Start í dag og Kristján Flóki Finnbogason var í byrjunarliði liðsins en var tekinn af velli á 56. mínútu.

Aron kom Start yfir strax á 10. mínútu en Tromsdalen jafnaði snemma í seinni hálfleik. Aron skoraði aftur á 55. mínútu, 2-1, með skoti af 18 metra færi og á 65. mínútu lagði hann upp mark fyrir félaga sinn Kasper Skaanes. Lokatölur í leiknum urðu því 3-1, Start í vil.

Aron hefur á leiktíðinni skorað 8 mörk og lagt upp önnur 7 í aðeins 13 leikjum.

Samúel Kári skoraði og Matthías og Arnór lögðu upp

Samúel Kári Friðjónsson skoraði eina mark Viking í 1-1 jafntefli gegn Mjøndalen í norsku úrvalsdeildinni í dag. Dagur Dan Þórhallsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Mjøndalen í leiknum.

Samúel átti frábæra skottilraun af 20 metra færi sem fór í þverslána og inn. Frábært mark hjá Keflvíkingnum sem lék allan leikinn á miðjunni.

Viking er sem stendur í 6. sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 18 stig. Mjøndalen er í 13. sæti með 12 stig.

Matthías Vilhjálmsson lagði upp fyrsta mark Vålerenga í 4-1 stórsigri liðsins gegn FK Haugesund á útivelli í dag.

Matthías spilaði í dag allan tímann fyrir Vålerenga sem fór upp í 4. sæti norsku úrvalsdeildarinnar með sigrinum.

Skagamaðurinn Arnór Smárason lagði þá upp tvö fyrstu mörk Lillestrøm sem vann 4-0 stórsigur á Tromsø í norsku úrvalsdeildinni í dag. Arnór spilaði klukkutíma leik áður en hann var tekinn af velli.

Arnór var að leika sinn sjöunda leik í röð eftir að hafa misst af sex fyrstu leikjum tímabilsins vegna meiðsla. Lillestrøm er í 10. sæti með 15 stig.

Oliver Sigurjónsson vermdi varamannabekkinn hjá Bodø/Glimt allan tímann þegar liðið vann 3-0 sigur gegn Odds Ballklubb í dag.

Hólmbert á skotskónum

Hólmbert Aron Friðjónsson var á skotskónum fyrir Álasund í norsku 1. deildinni í dag en hann skoraði fyrsta mark liðsins þegar það vann 3-1 sigur á Sandnes Ulf.

Hólmbert skoraði á 9. mínútu leiksins en þurfti nokkrum mínútum síðar að fara af velli vegna meiðsla.

Daníel Leó Grétarsson, Aron Elís Þrándarson og Davíð Kristján Ólafsson voru einnig í liði Álasundar í dag og þeir léku allan tímann.

Álasund vermir toppsæti norsku 1. deildarinnar með 32 stig og er með 2 stiga forskot á Sandefjord, sem er í 2. sæti.

Viðar Ari Jónsson lék þá allan leikinn fyrir Sandefjord þegar liðið fór með 2-0 sigur af hólmi gegn Jerv í norsku 1. deildinni í dag.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun