Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Aron og Elmar í tapliðum

Aron Einar og samherjar í Al-Arabi máttu sætta sig við tap gegn toppliðinu í katörsku úr­vals­deild­inni.

Mynd/alarab.qu

Aron Einar Gunnarsson og liðsfélagar hans í Al-Arabi máttu sætta sig við 3-1 tap gegn toppliði Al-Duhail í katörsku úr­vals­deild­inni í dag.

Leikið var á heimavelli Al-Arabi og Aron Einar lék allan leikinn á miðjunni fyrir Al-Arabi.

Al-Duhail komst yfir strax á fjórðu mínútu leiksins en Hamdi Harbaoui jafnaði metin fyrir Al-Arabi eftir um tuttugu mínútna leik með marki úr vítaspyrnu. Al-Duhail komst aftur yfir á 33. mínútu og var staðan í hálfleik 2-1, Al-Duhail í vil.

Á 80. mín­útu leiksins dró til tíðinda en þá lét Fahad Al-Abdulrahman, leikmaður Al-Arabi, reka sig af velli með beint rautt spjald. Al-Duhail-liðið nýtti sér liðsmun­inn og rak smiðshöggið með marki undir lok venjulegs leiktíma.

Al-Ar­abi er í 5. sæti deildarinnar af 12 liðum og hefur 18 stig eftir 13 umferðir.

Theodór Elmar lék í tapi

Theodór Elmar Bjarnason og samherjar í Akhisarspor þurftu að sætta sig við 1-0 tap gegn Bursaspor í tyrknesku B-deildinni. Theodór Elmar lék fyrstu 77 mínúturnar fyrir Akhisarspor á miðjunni.

Akhisarspor er í 6. sæti deildarinnar með 28 stig og er nú níu stigum á eftir toppliði Hatayspor eftir 19 leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun