Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Aron Elís þreytti frum­raun sína með OB

Aron Elís þreytti í dag frum­raun sína í dönsku úrvalsdeildinni með liði sínu OB frá Óðinsvéum.

ÍV/Getty

Aron Elís Þrándarson lék sinn fyrsta deildarleik með OB frá Óðinsvéum í dag og varð að sætta sig við 2-0 tap gegn Brøndby.

Aron Elís hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á sem varamaður á 53. mínútu leiksins og lék því meira en hálftíma í sínum fyrsta leik með liðinu. Hjörtur Hermannsson lék ekki með Brøndby vegna meiðsla.

Aron Elís gekk til liðs við OB frá Álasundi í Nor­egi í þarsíðasta mánuði, en hann var öflugur á síðustu leiktíð þegar Álasund vann sér inn sæti í efstu deild Nor­egs.

OB er í 9. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 27 stig eftir 20 leiki. Brøndby er í 4. sæti með 32 stig.

Fyrr í dag lék Eggert Gunnþór Jónsson fyrstu 73 mínúturnar fyrir SønderjyskE þegar liðið hafði betur gegn Hobro, 3-1. SønderjyskE er í 10. sæti með 25 stig.

Leik AGF frá Árósum og Randers var þá frestað vegna veðurs, en Jón Dagur Þorsteinsson leikur með AGF sem er í þriðja sæti með 36 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun