Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Myndband: Aron Einar skoraði í öðrum leikn­um í röð

Aron Einar skoraði eitt marka Al-Arabi þegar lið hans vann stórsigur í dag.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson skoraði eitt marka Al-Arabi þegar lið hans vann stórsigur á útivelli, 5-1, gegn Umm Salal í katörsku úr­vals­deild­inni í dag.

Umm Salal-liðið náði forystunni á 25. mínútu leiksins en Mohamed Salah Elneel jafnaði metin fyrir Al-Arabi á 41. mínútu áður en Aron Einar kom liðinu í 2-1 með góðu skallamarki eftir hornspyrnu rétt fyrir leikhléið. Aron Einar var einnig á skotskónum í síðustu umferð er hann skoraði mark Al-Arabi í 1-1 jafntefli gegn Al-Duhail SC en hann lék fyrstu 68. mínúturnar í dag.

Al-Arabi var miklu beitt­ara á upp­hafskafla síðari hálfleiks­ins og liðið skoraði tví­veg­is á fyrstu tíu mínútunum. Hamdi Harbaoui skoraði af stuttu færi úr teignum á 49. mínútu og Pierre-Michel Lasogga skoraði einnig af stuttu færi á 55. mínútu.

Varnarmaður Umm Salal sá um að fullkomna sigur Al-Arabi á 65. mínútu þegar hann varð fyrir því óhappi að skora í eigið mark. Lokatölur leiksins urðu því 5-1, Al-Arabi í vil.

Með sigrinum fór Al-Arabi upp í efsta sæti deildarinnar og hefur liðið nú 7 stig eftir fyrstu þrjá leikina í deildinni en Al-Sadd, sem er í öðru sætinu, á leik til góða og getur farið upp fyrir Al-Arabi.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið