Fylgstu með okkur:

Fréttir

Aron Einar fékk góða dóma

Aron Einar fékk góða einkunn fyrir frammistöðu sína með Cardiff þegar liðið vann mikilvægan sigur í gærkvöld.

ÍV/Getty

Aron Einar Gunnarsson fékk góða dóma fyr­ir frammistöðu sína með Cardiff sem hafði í gærkvöld bet­ur gegn Brighton & Hove Albion, 0-2, í ensku úr­vals­deild­inni.

Aron var í byrjunarliði Cardiff og lék mjög vel á miðjunni í leiknum og fékk átta í einkunn hjá WalesOnline fyrir frammistöðu sína. Aðeins einn leikmaður fékk hærri einkunn en Aron í leiknum og það var Nathaniel Mendez-Laing, sem skoraði fyrra mark Cardiff snemma leiks af 25 metra færi.

Eftir fimm mínútur í seinni hálfleik var það fyrirliðinn Sean Morrison sem tvöfaldaði forystuna fyrir Cardiff.

Aron þurfti að fara af velli fimm mínútum eftir seinna mark Cardiff vegna meiðsla í baki.

„Ég fékk bara gamla góða takið í bakið,“ sagði Aron í samtali við mbl.is eftir leikinn í gær. Aron segir hins vegar að hann verði klár í slaginn þegar Cardiff tekur á móti Liverpool næsta sunnudag.

Sigurinn hjá Cardiff í gærkvöld var gífurlega mikilvægur en liðið lagaði stöðu sína í fallbaráttunni í deildinni. Liðið er enn í 18. sæti deildarinnar, sem er fallsæti, en aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti.

Cardiff á fjóra leiki eftir á leiktíðinni og mun í þeim leikjum mæta Liverpool (á heimavelli), Fulham (á útivelli), Crystal Palace (á heimavelli) og Manchester United (á útivelli).

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir