Fylgstu með okkur:

Fréttir

Arnór til­nefnd­ur sem leikmaður árs­ins hjá CSKA

Arnór Sigurðsson er einn fimm leik­manna sem koma til greina sem leikmaður ársins hjá CSKA Moskvu. 

Skagamaðurinn ungi Arnór Sigurðsson er einn fimm leik­manna sem koma til greina sem leikmaður ársins hjá rússneska liðinu CSKA Moskvu.

Hægt er að kjósa Arnór sem leikmann ársins hjá CSKA Moskvu með því að smella hér, en nafn hans er það þriðja efsta á listanum, með rússnesku letri.

Arnór lék vel fyrir CSKA Moskvu á nýafstaðinni leiktíð og getur verið ánægður með sína fyrstu leiktíð í Rússlandi eftir að hafa verið keyptur til félagsins í fyrrahaust frá sænska félaginu Norrköping.

Arnór gerði fimm mörk í 21 leik í rússnesku úrvalsdeildinni, ásamt því að skora tvö í Meist­ara­deild Evr­ópu, gegn Roma og Real Madrid.

Arnór er um þessar mundir í landsliðsverkefni með íslenska landsliðinu sem leikur við Tyrki klukkan 18:45 í kvöld en þar verður hann á varamannabekknum. Hann kom inn á sem varamaður í 1-0 sigri Íslands á Albaníu síðasta laugardag.

Hörður Björgvin Magnússon leikur einnig fyrir CSKA Moskvu og var að klára sitt fyrsta tímabil með félaginu líkt og Arnór. Hörður Björgvin lék 27 leiki fyrir CSKA Moskvu í öllum keppnum á leiktíðinni og skoraði tvö mörk. Þeir voru báðir valdir í lið vikunnar eftir lokaumferð rússnesku úrvalsdeildarinnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir