Fylgstu með okkur:

Fréttir

Arnór og Hörður valdir í lið vikunnar

Arnór og Hörður Björgvin voru báðir valdir í lið vikunnar í Rússlandi.

ÍV/Getty

Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon, leikmenn CSKA Moskvu, voru valdir í lið vikunnar eftir lokaumferð rússnesku úrvalsdeildarinnar af sitt hvorum miðlinum. Einnig mátti finna þá í liði umferðarinnar hjá sama miðlinum.

Báðir áttu þeir frábæran leik fyrir CSKA Moskvu í 6-0 stórsigri liðsins á heimavelli gegn Krylya Sovetov Samara í lokaumferð rússnesku úrvalsdeildarinnar í gær. Arnór skoraði eitt mark í leiknum og lagði upp annað fyrir Hörð Björgvin.

Arnór var valinn í lið umferðarinnar hjá tölfræðisíðunni WhoScored og hlaut þar hæstu mögulegu einkunn, hvorki meira né minna en 10 og enginn annar en hann fékk hærri einkunn í lokaumferðinni:

Hörður Björgvin var valinn í lið umferðarinnar hjá rússneska miðlinum Sport Express og fékk 6,5 í einkunn fyrir frammistöðu sína í leiknum í gær. Þess ber að geta að einkunnirnar þar eru mikið lægri en hjá WhoScored, sem valdi Arnór í lið umferðarinnar.

Lið umferðarinnar að mati Sport Expresss. Mynd/Sport Express

Þá voru þeir báðir valdir í lið umferðarinnar hjá News.ru.

Arnór og Hörður Björgvin geta verið ánægðir með sína fyrstu leiktíð fyrir CSKA Moskvu en þeir gengu báðir í raðir félagsins í fyrrahaust. Arnór gerði fimm mörk í 21 leik í rússnesku úrvalsdeildinni, ásamt því að skora tvö í Meist­ara­deild Evr­ópu. Líkur eru á því að annað félag kaupi þjónustu Arnórs í sumar. Í hlaðvarpsþætti Hjörvars Hafliðasonar, Dr. Football, var fullyrt að hann myndi nokkuð örugglega ganga í raðir ítalska félagsins Napoli í félagsskiptaglugganum í sumar, en samkvæmt heimildum Íslendingavaktarinnar eru þær fréttir ekki á rökum reistar. Hörður Björgvin lék 27 leiki fyrir CSKA Moskvu í öllum keppnum á leiktíðinni og skoraði tvö mörk.

CSKA Moskva endaði í 4. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar með 51 stig og leikur á næstu leiktíð í Evrópudeildinni.

Hörður ánægður með leiktíðina

Hörður Björgvin er ánægður með sína fyrstu leiktíð hjá CSKA Mosvku. Hann skrifaði fyrr í dag nokkur orð á Twitter-síðu sína.

„Fyrstu leiktíðinni er lokið hjá CSKA Mosvku og hún var ánægjuleg. Við náðum ekki að tryggja okkur þátttökurétt í Meistaradeildinni á næstu leiktíð, en ég tel að við höfum staðið okkur vel með ungan leikmannahóp,“ sagði Hörður Björgvin. 

„Núna er ég orðinn spenntur fyrir næstu leiktíð og hvað hún ber í skauti sér. Ég vil þakka stuðningsmönnum CSKA Moskvu fyrir ómetanlegan stuðning.“

Hér má sjá mörkin þeirra í gær:

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir