Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Arnór með glæsi­mark fyrir CSKA Moskvu – Sjáðu markið

Arnór opnaði markareikning sinn í rússnesku úrvalsdeildinni á leiktíðinni með glæsilegu marki.

Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson virðist ætla að halda þar sem frá var horfið í vor með liði sínu CSKA Moskvu í rússnesku úrvalsdeildini.

Arnór gerði fimm mörk í 21 leik í rússnesku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð, ásamt því að skora tvö í Meist­ara­deild Evr­ópu, gegn Roma og Real Madrid.

Arnór skoraði í dag eitt mark fyrir CSKA Moskvu í 2-1 sigri liðsins á Orenburg í rússnesku úrvalsdeildinni. Markið hans var einkar glæsilegt en það kom á 38. mínútu leiksins. Fedor Chalov, leikmaður CSKA, vippaði boltanum snyrtilega til Arnórs sem lét vaða á markið með frá­bær­um ár­angri því bolt­inn hafnaði efst í hægra horn­inu.

Nikola Vlasic hafði nokkrum mínútum áður komið CSKA í forystu en tveimur mínútum eftir mark Arnórs minnkaði Orenburg muninn niður í eitt mark. Lokatölur í leiknum urðu 2-1, CSKA í vil.

Arnór lék fram á 87. mínútu í leiknum á meðan Hörður Björgvin Magnússon lék allan leikinn fyrir liðið.

CSKA Moskva er með 3 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar í deildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið