Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Arnór lagði upp í mikilvægum sigri í topp­bar­átt­unni

Arnór Ingvi átti í dag stoðsendingu í mikilvægum sigri Malmö.

Mynd/Sydsvenskan

Arnór Ingvi Traustason og félagar í Malmö lögðu Elfsborg á útivelli í dag, 3-0, í sænsku úrvalsdeildinni og styrktu með því stöðu sína í toppbaráttunni.

Guillermo Molins skoraði fyrsta mark leiksins á 63. mínútu fyrir gestina í Malmö. Arnór Ingvi hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á í kjölfar fyrsta marksins hjá Malmö.

Jo Inge Berget tvöfaldaði forystuna fyrir Malmö á 83. mínútu með marki úr vítaspyrnu áður en Marcus Antonsson innsiglaði sigur liðsins með þriðja markinu á 84. mínútu eftir undirbúning frá Arnóri Ingva.

Malmö fer því heim með 3-0 sigur í farteskinu auk þess að lyfta sér upp í annað sæti deildarinnar með 50 stig þegar sex umferðum er ólokið í deildinni.

AIK, sem Kolbeinn Sigþórsson leikur með, tapaði í fyrr í dag fyrir Hammarby, 2-1, á útivelli.

Vladimir Rodic skoraði tvívegis fyrir Hammarby áður en Karol Mets minnkaði muninn niður í eitt mark fyrir AIK á 68. mínútu. Kolbeinn hóf leikinn á bekknum en kom inn á fyrir Chinedu Obasi sem þurfti að fara af velli vegna meiðsla á 26. mínútu.

AIK missti þar með af mikilvægum stigum í toppbaráttunni en liðið er í 3. sætinu með 49 stig, einu stigi á eftir Malmö.

Daníel Hafsteinsson sat allan tímann á varamannabekknum hjá Helsingborg sem vann 2-1 sigur á Eskilstuna. Helsingborg er í 10. sæti með 24 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun