Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Arnór Ingvi með mark og stoðsendingu í stórsigri Malmö

Arnór Ingvi skoraði og átti stoðsendingu þegar Malmö vann stórsigur á Viðari Erni og félögum hans í Hammarby.

Arnór Ingvi Traustason og Viðar Örn Kjartansson mættust í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Malmö, lið Arnórs Ingva, vann þá 4-1 heimasigur á Hammarby, liði Viðars Arnar.

Það var Hammarby sem skoraði fyrsta markið í leiknum eftir aðeins 13. mínútur og staðan í leikhléi var 0-1 fyrir Viðari Erni og félögum.

Snemma í seinni hálfleik jafnaði Arnór Ingvi metin í 1-1 fyrir Malmö með flottu mark fyrir utan teig og nokkrum mínútum síðar skoraði Jeppe Andersen skallamark fyrir Malmö, staðan orðin 2-1.

Tuttugu mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma lagði Arnór Ingvi upp mark fyrir liðsfélaga sinn Søren Rieks sem setti knöttinn laglega í hægra hornið uppi. Malmö gerði þá endanlega út um leikinn á 81. mínútu þegar Markus Rosenberg skoraði skallamark. 4-1 stórsigur hjá Malmö gegn Hammarby í kvöld.

Malmö er með 10 stig eða jafn mörg stig og topplið sænsku úrvalsdeildarinnar, Djurgården, sem á hins vegar leik til góða. Hammarby er í 12. sæti með fimm stig.

Kolbeinn Sigþórsson var ekki í leikmannahópi AIK sem hafði betur, 1-0, gegn Hacken í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Mark og stoðsending Arnórs í kvöld:

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið