Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Arnór Ingvi með mark og stoðsendingu í stórsigri

Arnór Ingvi skoraði eitt mark og lagði upp annað í stórsigri Malmö. Þá var Kolbeinn í sigurliði AIK.

Arnór Ingvi Traustason skoraði eitt mark og átti stoðsendingu í 5-0 stórsigri Malmö á Kalmar á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Arnór hóf leikinn vel því hann lagði upp mark strax á þriðju mínútu leiksins á liðsfélaga sinn Sören Rieks. Erfið byrjun fyrir Kalmar og ekki bætti úr skák þegar leikmaður liðsins lét reka sig af velli með beint rautt spjald á 9. mínútu.

Markus Rosenberg skoraði tvö mörk fyrir Malmö í sitt hvorum hálfleiknum, áður Arnór Ingvi skoraði fjórða mark liðsins á 60. mínútu en Rieks, sem skoraði fyrsta mark leiksins eftir undirbúning Arnórs, lagði upp markið fyrir Arnór og þakkaði því fyrir stoðsendinguna í fyrri hálfleiknum.

Á 70. mínútu fullkomnaði Jo Inge Berget sigurinn fyrir Malmö með því að skora fimmta mark liðsins. Lokatölur því 5-0, Malmö í vil.

Kolbeinn Sigþórsson lék með liði sínu AIK sem tók á móti Djurgården. Kolbeinn var í byrjunarliðinu og lék rúman klukkutíma leik.

Það var Sebastian Larsson sem skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 23. mínútu og tryggði því AIK stigin þrjú.

AIK er í öðru sæti deildarinnar með 46 stig, einu stigi á eftir toppliði Djurgården en tveimur stigum á undan Arnóri Ingva og félögum í Malmö sem eru í 3. sætinu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun