Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Arnór Ingvi lagði upp mark þegar Malmö fór á toppinn

Arnór Ingvi lagði upp mark þegar Malmö fór á toppinn í sænsku úrvalsdeildinni.

Mynd/Malmö

Arnór Ingvi Traustason átti góða stoðsendingu í sænsku úrvalsdeildinni í dag þegar lið hans Malmö hafði betur gegn Falkenbergs, 1-2. Arnór Ingvi var í byrjunarliði Malmö og lék allan leikinn.

Fljótlega í leiknum, á 6. mínútu, lagði Arnór Ingvi upp mark fyrir liðsfélaga sinn Markus Rosenberg. Arnór hafði sótt upp vinstri kantinn og sendi góða fyrirgjöf inn á teiginn þar sem Rosenberg var mættur og skoraði með kröftugum skalla.

Eftir 25. mínútur í leiknum náði Malmö að skora aftur eftir klaufaleg mistök hjá Falkenbergs. Varnarmaður Falkenbergs ætlaði þá að gefa til baka á markmann liðsins en sú sending endaði illa. Markus Rosenberg sóknarmaður Malmö gerði vel með góðri hápressu og nýtti sér þessi mistök og skoraði annað mark liðsins og jafnframt sitt annað mark í leiknum.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks náði Falkenbergs að skora flott skallamark en fleiri mörk voru ekki skoruð í seinni hálfleiknum. Markus Rosenberg gat fullkomnað þrennuna á 56. mínútu þegar hann fór á vítapunktinn en hann skaut í tréverkið. 1-2 sigur hjá Malmö í dag.

Malmö fer með sigri dagsins á topp sænsku úrvalsdeildarinnar. Liðið er með 14 stig eftir sjö leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun