Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Arnór Ingvi á toppn­um eft­ir stórsigur – Andri Rúnar skoraði

Arnór Ingvi og liðsfélagar hans í Malmö eru á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar eftir stórsigur í dag.

Arnór Ingvi Traustason og liðsfélagar hans í Malmö eru enn á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar eftir 5-0 stórsigur á Eskilstuna í 11. umferð deildarinnar í dag.

Arnór Ingvi lék í rúmar 70. mínútur í leiknum áður en hann var tekinn af velli. Guillermo Molins skoraði fyrsta mark Malmö í leiknum og staðan í leikhléinu var 1-0 fyrir Malmö.

Fljótlega í síðari hálfleik tvöfaldaði Marcus Antonsson forystuna fyrir Malmö. Molins skoraði þriðja mark liðsins og jafnframt sitt annað í leiknum á 65. mínútu. Nokkru síðar gerði Sören Rieks fjórða markið fyrir liðið og rétt fyrir leikslok gerði Anders Christiansen endanlega út um leikinn þegar hann skoraði fimmta mark Malmö. Lokatölur 5-0.

Malmö hefur unnið sjö leiki í sænsku úrvalsdeildinni að ellefu umferðum loknum og er komið með 24 stig. Eins og áður segir er liðið á toppi deildarinnar en Göteborg, sem í 2. sæti, er með þremur stigum minna.

Andri Rúnar skoraði í öðrum leiknum í röð

Andri Rúnar Bjarnason og samherjar hans í Helsingsborg gerðu 1-1 jafntefli við Falkenbergs í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Andri Rúnar spilaði allan leikinn og skoraði eina mark Helsingborgs á 67. mínútu og það skoraði hann með skalla eftir góða fyrirgjöf.

Andri Rúnar var einnig á skotskónum í síðustu umferð er hann skoraði mark beint úr aukaspyrnu í 1-1 jafntefli gegn Eskilstuna. Hann er nú kominn með þrjú mörk í sex leikjum á leiktíðinni.

Helsingborgs er í 13. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 10 stig eftir ellefu umferðir.

Nói Snæhólm í sigurliði og tap hjá Bjarna Mark

Nói Snæhólm Ólafsson lék allan tímann fyrir lið sitt Syrianska sem vann 1-0 sigur gegn Brommapojkarna í sænsku B-deildinni í dag.

Þetta var fyrsti sigur liðsins í töluverðan tíma en liðið er í 14. sæti með 9 stig.

Þá spilaði Bjarni Mark Antonsson allan tímann fyrir IK Brage sem beið lægri hlut fyrir Jönköpings, 2-0, í sænsku B-deildinni í dag.

Brage fer niður um eitt sæti eftir tapið í dag en liðið er nú í 4. sæti sænsku B-deildarinnar með 17 stig.

Bjarni Mark hefur spilað níu leiki fyrir Brage á leiktíðinni og lagt upp eitt mark.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið