Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Arnór á skot­skón­um í sigri CSKA Moskvu

Arnór Sigurðsson skoraði seinna mark CSKA Moskvu þegar liðið hrósaði 2-0 sigri í rússnesku úrvalsdeildinni.

ÍV/Getty

Íslend­ingaliðið CSKA Moskva vann 2-0 heima­sig­ur á Anzhi Makhachkala í rússnesku úr­vals­deild­inni í dag. Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson voru báðir í byrjunarliði CSKA Moskvu í dag.

Það var Jaka Bijol sem kom CSKA Moskvu á bragðið eftir 13. mínútna leik. Bijol skoraði með fínu skoti af stuttu færi eftir undirbúning frá Nikola Vlasic, lánsmanni frá Everton.

Arnór Sigurðsson tvöfaldaði svo forystu CSKA Moskvu eftir tæpar tíu mínútur í seinni hálfleik. Hörður Björgvin átti þátt í aðdraganda marksins en hann átti fyrirgjöf á sóknarmann CSKA sem framlengdi boltanum á Arnór með öxlinni. Arnór tók við boltanum vel og átti eina frábæra snertingu til viðbótar áður en hann skoraði laglegt mark. Lokatölur urðu 2-0.

Arnór hefur nú gert fjögur mörk í deildinni með CSKA Moskvu á leiktíðinni.

Með sigrinum er CSKA Moskva komið í 44 stig og upp í 3. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar. Liðið er enn í baráttu um rússneska meistaratitillinn, en liðið er átta stigum á eftir Zenit St. Pétursborg sem situr á toppi deildarinnar þegar fimm leikir eru eftir af tímabilinu.

Mark Arnórs:

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið