Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Árni og félagar féllu úr efstu deild

Árni og liðsfélagar hans í Chornomor­ets Odessa féllu í gær úr efstu deildinni í Úkraínu.

Mynd/УПЛ

Árni Vilhjálmsson og liðsfélagar hans í úkraínska úr­vals­deild­ar­fé­lag­inu Chornomor­ets Odessa féllu í gær úr efstu deildinni þar í landi, eftir 2-0 tap fyrir Ko­los í seinni leik liðanna í fallumspili deildarinnar. Árni lék fyrstu 71. mínútuna í leiknum áður en hann var tekinn af velli.

Fyrri leikur liðanna endaði með markalausu jafntefli á heimavelli Chornomor­ets en úrslitin í leiknum í gær réðust á tveimur vítaspyrnum. Kolos-liðið fékk vítaspyrnu á 18. mínútu en það fór forgörðum. Vítaspyrnuklúðrið kom þó ekki að sök fyrir Kolos, því liðið fékk tvær vítaspyrnur í síðari hálfleik, með stuttu millibili. Vita­ly Gavr­ish fór á punktinn í báðum vítaspyrnunum í síðari hálfleiknum og skoraði úr þeim báðum.

Árni átti stóran þátt í því í að Chornomorets tryggði sér leiki í fallumspili um að halda sæti sínu í úkraínsku úrvalsdeildinni að ári en liðið sat á tíma í botnsæti áður en það tryggði sér tvo fallumspilsleiki við Kolos úr B-deildinni í Úkraínu um laust sæti í efstu deild.

Árni lék 14 leiki fyrir Chornomorets og í þeim leikjum skoraði hann 7 mörk. Hann gekk í raðir félagsins í febrúarmánuði að láni frá pólska félaginu Termalica Nieciecza út þetta keppnistímabil.

Árni mun að öllum líkindum finna sér nýtt félag í félagsskiptaglugganum í sumar en mörg lið hafa sýnt honum áhuga síðustu vikurnar. Eitt þeirra er Dynamo Kiev í Úkraínu og þá eru félögin Desna, Karpaty og Lvov í Úkraínu í viðræðum við umboðsmann Árna um möguleg félagsskipti. Til viðbótar eru liðin Vorska og Oleksandriya í Úkraínu áhugasöm, ásamt FC Ufa í Rússlandi, Craiova í Rúmeníu og nokkrum félögum í pólsku úrvalsdeildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun