Fylgstu með okkur:

Fréttir

Árni í liði um­ferðar­inn­ar – „Var orðinn mjög hungraður“

Árni var orðinn ansi hungraður í að fá að spila á ný og skora fleiri mörk.

Mynd/koloskovalivka.com

Árni Vilhjálmsson lét svo sannarlega til sín taka í sínum fyrsta leik með sínu nýja liði, Kolos Kovalivka, í úkraínsku úr­vals­deild­inni.

Árni gekk til liðs við Kolos Kovalivka á dögunum og spilaði í gær sinn fyrsta leik fyrir liðið þegar það lagði Desna, 2-0. Árni var í byrj­un­arliðinu og skoraði annað markið á 72. mín­útu leiksins.

Frammistaða Árna í leikn­um skilaði hon­um sæti í liði umferðarinnar hjá netmiðlinum Football.ua í Úkraínu og heimasíða Kolos Kovalivka greinir frá því. Þá var Ruslan Kostyshyn, þjálfari Árna, valinn þjálfari umferðarinnar.

Ko­los Kovali­vka hafði fyrir leikinn í gær tapað fimm leikjum í röð en það er í átt­unda sæti deild­ar­inn­ar með 17 stig eft­ir 15 umferðir.

Var orðinn hungraður og fékk loksins að taka fagnið á ný

,,Þetta var mjög góður sigur hjá liðinu og það var gott að ná inn marki. Þegar þú færð góða aðstoð frá liðsfélögunum þá skorar þú mörk. Leikskipulagið var gott og við framkvæmdum okkar aðgerðir vel og fylgdum fyrirmælum þjálfarans. Við náðum að skora tvisvar en það var einnig mikilvægt að halda markinu hreinu. Það gekk allt upp,“ sagði Árni í samtali við Football.ua.

Árni skoraði á síðustu leiktíð 7 mörk þegar hann var í láni hjá úkraínska liðinu Chornomorets Odessa. Þar tók hann oft sama fagnið með því að þykjast borða með skeið. Í gær tók hann fagnið og var það vel við hæfi, enda orðinn nokkuð hungraður í að spila á ný og skora fleiri mörk. Árni var áður samningsbundinn Termalica Nieciecza í Póllandi en rifti samningi sínum við liðið í september.

,,Að vera svona lengi frá fótboltanum var að gera út af við mig. Ég var orðinn mjög hungraður og fékk því loksins eitthvað ,,borða.“ Það var góður bónus að skora markið en það sem var mik­il­væg­ast var að ná í þrjú stig.“

Markið hans Árna og fagnið má sjá í meðfylgjandi myndskeiði.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir