Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Ari Freyr byrjaði á sigri gegn Kompany

Ari Freyr fagnaði sigri í fyrsta móts­leikn­um með KV Oostende í belgísku úrvalsdeildinni.

Mynd/Oostende

Ari Freyr Skúlason og samherjar hans í KV Oostende hófu belgísku úrvalsdeildina á sigri gegn Anderlecht á útivelli í dag.

Ari Freyr var í byrjunarliði Oostende og spilaði allan leikinn. Michel Vlap kom Anderlecht yfir á 13. mínútu en Ronald Vargas jafnaði metin fyrir Oostende aðeins sex mínútum síðar.

Varamaðurinn Fashion Sakala tryggði Oostende sigurinn þegar korter var eftir af leiknum með góðu skoti neðst í hægra hornið sem markmaður Anderlecht réð ekki við.

Hjá Anderlecht er Vincent Kompany, fyrrum leikmaður Manchester City, spilandi þjálfari og þá leikur Samir Nasri, fyrrum leikmaður Arsenal og Manchester City, einnig með liðinu.

Ari Freyr gerði tveggja ára samning við Oostende í vor, eftir að hafa sagt skilið við nýfallið lið Lokeren úr belgísku úrvalsdeildinni.

Ari Freyr býr yfir töluverðri reynslu í belgísku úrvalsdeildinni en í henni á hann að baki um 90 leiki og hefur til viðbótar skorað 12 mörk og lagt upp önnur 11.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun