Fylgstu með okkur:

Fréttir

Andri yngsti Íslend­ing­ur­inn til þess að spila í einni af fimm stærstu deild­um Evr­ópu – Fær mikla um­fjöll­un á Ítalíu

Andri Fannar hef­ur fengið mikla um­fjöll­un hjá ítölskum fjölmiðlum eftir að hafa leikið sinn fyrsta leik fyrir aðallið Bologna.

Andri Fannar Baldursson varð yngsti Íslend­ing­ur­inn til þess að spila í einni af fimm stærstu deild­um Evr­ópu þegar hann kom inn á sem varamaður og lék síðasta hálftímann fyrir Bologna í 1-1 jafnteflisleik gegn Udinese í ítölsku A-deildinni síðasta laugardag.

Andri Fannar bætti þar með met Sigurðar Jónssonar sem var hálfu ári eldri þegar hann lék sinn fyrsta leik með enska liðinu Sheffield Wednesday árið 1984. RÚV greindi frá því og birti í gær ítarlegt viðtal við Andra Fannar.

„Ég var fáránlega spenntur, mér leið mjög vel, ég var ekkert mjög stressaður. Ég var sendur einn að hita upp í byrjun seinni hálfleiks og svo bara fæ ég kallið á 55. mínútu, þá fékk ég smá hnút í magann en svo gekk bara fáránlega vel,“ sagði Andri Fannar í viðtali við RÚV.

„Það var ótrúlega mikill hávaði og mikil stemning, mikil gleði og mér fannst ganga mjög vel. Ég fékk fáránlega mikið hrós eftir leikinn frá leikmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum. Þetta er bara búið að vera frábært.“

Staðan var 1-0 fyrir Udinese þegar Andri Fannar kom inn á völlinn en í uppbótatímanum skoraði Rodrigo Palacio fyrir Bologna og tryggði dramatískt jafntefli.

Andri Fannar lék vel þann tíma sem hann var inni á vellinum og var nálægt því að leggja upp mark. Andri Fannar fékk til að mynda hæstu einkunn í leiknum, ásamt fimm öðrum leikmönnum, en allir fengu þeir 6,5 í einkunn fyrir frammistöðu sína hjá ítalska íþróttadagblaðinu Corriere dello Sport. Siniša Mihajlović, knattspyrnustjóri Bologna, fékk þar 7 í einkunn.

Andri Fannar, sem er nýorðinn 18 ára gamall, kom til Bologna á lánssamningi frá Breiðabliki á síðasta ári en ítalska liðið átti for­kaups­rétt á hon­um og ákvað að nýta sér þann möguleika í fyrrahaust.

La Gazzetta dello Sport, eitt stærsta íþróttadagblaðið á Ítalíu, fjallaði meðal annars um Andra Fannar í gær og þar fær hann mikið hrós frá Emilio De Leo úr þjálfarateymi Bologna. Að lokum talar Andri Fannar um sitt átrúnaðargoð sem er Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City.

Þá fjallar ítalska staðarblaðið Corriere di Bologna um Andra Fannar og sömu sögu er að segja um ítalska vefmiðilinn gianlucadimarzio.com.

Frétt um Andra Fannar hjá La Gazzetta dello Sport. Mynd/PressReader

Ein­kunna­gjöf Corriere dello Sport Mynd/PressReader

Umfjöllun um Andra Fannar í staðarblaðinu Corriere di Bologna. Mynd/PressReader 

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir