Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Andri Rúnar sneri aft­ur – Jafn­tefli í Íslend­inga­slag í Nor­egi

Andri Rúnar sneri til baka eftir meiðsli og Íslendingaslagur í Noregi endaði með jafntefli.

Mynd/Helsingborgs

Andri Rúnar Bjarnason sneri aft­ur í dag er hann spilaði síðustu 25 mín­út­urn­ar í 1-1 jafntefli Helsingborg við Djurgården í 7. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar.

Andri Rúnar hafði síðast leikið fyrir Helsingborg í 2-1 tapi gegn Häcken í byrjun apríl þar sem hann gat ekki klárað leikinn vegna meiðsla. Í næstu fjórum leikjum Helsingborg gat Andri ekki gefið kost á sér en hann hefur nú náð sér góðum af meiðslum.

Fljótlega í leiknum í dag varð varnarmaður Helsingborg fyrir því óhappi að skora í eigið mark. 0-1 í leikhléi en eftir klukkutíma náði Helsingborg að jafna leikinn í 1-1, nokkrum mínútum áður en Andri Rúnar kom inn á völlinn. Lokatölur í leiknum urðu 1-1.

Andri Rúnar og félagar eru í 12. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 8 stig eftir sjö leiki.

Sjá einnig: Andri Rúnar ætlar að slá á efasemdaraddir og vonast eftir fleiri tækifærum með landsliðinu

Guðmundur Þórarinsson var ekki sjáanlegur í leikmannahópi IFK Norrköping sem lék við Elfsborg á útivelli í dag. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli.

Jafnt í Íslendingaslag í Noregi

Í norsku úrvalsdeildinni mættust þeir Samúel Kári Friðjónsson og Matthías Vilhjálmsson.

Samúel Kári leikur fyrir Viking og Matthías spilar með Vålerenga. Þeir voru í byrjunarliðum liða sinna í dag en þeir fóru báðir af velli í uppbótartímanum í seinni hálfleik.

Lokatölur leiksins urðu 1-1 og komu bæði mörkin með stuttu millibili í seinni hálfleik. Chidera Ejuke skoraði fyrir Vålerenga á 69. mínútu og aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Tommy Høiland metin í 1-1 fyrir Viking.

Vålerenga og Viking hafa farið vel af stað í fyrstu sjö leikjunum í norsku úrvalsdeildinni. Vålerenga er í 4. sæti með 11 stig og Viking er í 5. sæti með 10 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun