Fylgstu með okkur:

Fréttir

Andri Rúnar kostaði um 40 milljónir

Þýska liðið Kaisers­lauternum greiddi um 40 milljónir íslenskra króna fyrir Andra Rúnar.

Andri Rúnar í treyju Kaisers­lautern í dag. Mynd/[email protected]_Teufel

Þýska C-deildarliðið Kaisers­lautern greiddi Helsingborgs í Svíþjóð nærri 3 milljónir sænskra króna, eða um 40 milljónir íslenskra króna, fyrir Andra Rúnar Bjarnason.

Fotbollskanalen í Svíþjóð segir að Kaisers­lautern hafi greitt 2 milljónir sænskra króna fyrir Andra Rúnar en Íslendingavaktin hefur heimildir fyrir því að þýska félagið hafi greitt nærri 3 milljónir sænskra króna fyrir félagaskiptin.

Félögin komust að samkomulagi um félagaskiptin fyrir nokkrum dögum síðan og þau gengu í gegn fyrr í dag. Kaisers­lautern greindi frá því í dag á heimasíðu sinni að Andri Rúnar hafi skrifað undir tveggja ára samning við félagið, með möguleika á framlengingu.

Andri Rúnar var vart búinn að skrifa undir samning við Kaisers­lautern í dag þegar hann var kominn í búning liðsins og út á völl til að spila æfingaleik. Kaisers­lautern lék í dag æfingaleik við neðrideildarliðið SV Rodenbach. Andri Rúnar fór beint í byrjunarliðið og lék fyrri hálfleikinn en viðureignin endaði með 5-0 sigri Kaisers­lautern.

Andri Rúnar var að renna út á samningi hjá Helsingborgs í lok árs og félagið ákvað því að selja hann í stað þess að missa hann á frjálsri sölu.

Andri Rúnar átti stóran þátt í því þegar Helsingborgs tryggði sér á síðustu leiktíð sæti í sænsku úrvalsdeildinni með því vinna sænsku B-deildina. Andri Rúnar var frábær í sænsku B-deildinni á síðustu leiktíð og hirti markakóngstitilinn þar sem hann skoraði 16 mörk og lagði upp önnur sex. Hann hefur skorað þrjú mörk í átta leikjum á núverandi leiktíð.

Andri Rúnar á að baki 5 A-landsleiki og eitt mark fyrir Ísland.

Kaisers­lautern endaði í 9. sæti þýsku C-deild­ar­inn­ar á nýafstaðinni leiktíð en liðið féll úr þýsku B-deildinni á þarsíðustu leiktíð. Liðið féll úr þýsku úrvalsdeildinni árið 2012. Jón Daði Böðvars­son lék með liðinu fyr­ir þrem­ur árum síðan.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir