Fylgstu með okkur:

Fréttir

Andri Rúnar ætlar að slá á efasemdaraddir og vonast eftir fleiri tækifærum með landsliðinu

Andri Rúnar stefnir á endurkomu í næsta leik eftir að hafa verið að glíma við meiðsli upp á síðkastið.

Mynd/Helsingborgs

Andri Rúnar Bjarnason átti stóran þátt í því þegar lið hans Helsingborgs tryggði sér á síðustu leiktíð sæti í efstu deild Svíþjóðar með því að verða meistari í B-deildinni þar í landi. Andri gerði samning við liðið fyrir síðustu leiktíð eftir að hafa átt stórkostlegt tímabil með Grindavík sumarið 2017 þar sem hann skoraði alls 19 mörk í 22 leikjum.

Frumraun Andra Rúnars í atvinnumennsku gekk eins og í sögu og hann tók sænsku B-deildina, Superettan, með trompi á síðustu leiktíð og hirti markakóngstitilinn, en hann skoraði alls 16 mörk og lagði upp önnur sex.

Sænska úrvalsdeildin fór aftur af stað í síðasta mánuði og Andri Rúnar gerði sér lítið fyrir og skoraði í fyrsta leiknum sínum í deildinni þegar hann innsiglaði 3-1 sigur Helsingborgs gegn Norrköping í fyrstu umferðinni. Hægt er að sjá markið hans í þeim leik hér að neðan:

 

Nokkrum dögum fyrir leikinn gegn Norrköping varð Andri Rúnar fyrir meiðslum á ökkla. Hann náði að leika í 82. mínútur gegn Norrköping en í næsta leik gegn Häcken þurfti hann að fara af velli eftir rúman hálftíma leik og gat ekki gefið kost á sér í næstu fjórum leikjum vegna meiðslanna. Andri stefnir á endurkomu í næsta leik og hann fór á dögunum í ítarlegt viðtal hjá sænska blaðinu Expressen þar sem hann fór yfir víðan völl.

„Þetta var mjög svekkjandi, sérstaklega í ljósi þess að þetta var tækling á æfingu, sem gerði þetta enn meira svekkjandi,“ segir Andri Rúnar en hann telur að adrénalínið hafi orðið til þess að hann fundið lítið fyrir meiðslunum í fyrsta leiknum. Í næsta leik gat hann hins vegar ekki hreyft sig eftir tuttugu mínútna leik og þurfti því að fara af velli.

Andri Rúnar var ánægður að komast á blað snemma á leiktíðinni og var sáttur með fyrsta markið sitt í sænsku úrvalsdeildinni. „Þetta var gott mark og ég tel að það hafi verið mjög flott því færið var erfitt. Það er alltaf mikilvægt fyrir sóknarmenn að skora mörk til að efla sjálfstraustið.“

Ætlar að kæfa allar efasemdaraddir

„Ég vil spila í sænsku úrvalsdeildinni og ætla hér að afsanna þær efasemdaraddir að ég sé ekki tilbúinn að spila í þessari deild, sem er ekki rétt. Ég er tilbúinn og ég get spilað á flestum stöðum. Ég veit hvernig á að skora mörk og það skiptir ekki máli hvar ég er að spila því minn helsti styrkleiki er að skora mörk. Þegar ég sný aftur á völlinn þá ætla ég að sýna enn meira.“

Hafa efasemdirnar einhver áhrif?

„Þær eru hjálplegar, því þær kveikja nýjan neista í mér til að gera betur. Það er alltaf gott þegar þú nærð þínum markmiðum þegar það eru einhverjar neikvæðar efasemdir sem koma þér lengra. Þegar það er ekki nóg að sigra sjálfan sig þá er alltaf hægt að finna eitthvað annað til að halda áfram. Eins þegar meiðsli eru að hrjá mann þá hefur þú enn meiri hvatningu til fara í líkamsræktarsalinn og koma sterkari til baka. Ég orðinn vanur þessari aðferð; að taka það neikvæða og snúa því yfir í eitthvað jákvætt fyrir mig sjálfan.“

Vonsvikinn með frammistöður sínar með landsliðinu í janúar

Andri Rúnar fékk tækifæri með íslenska landsliðinu í vináttulandsleikjum gegn Svíþjóð og Eistlandi í síðasta janúarmánuði. Hann segist ekki vera sáttur með frammistöður sínar í þeim leikjum og vonast til þess að fá aftur tækifæri þegar hann er í betra líkamlegu formi.

„Ég var svolítið vonsvikinn með mínar frammistöður í leikjunum tveimur í janúar. Ég var ekki í mínu besta líkamlega formi og hafði ekki æft í tvo og hálfan mánuð. Ég vona að ég fái aftur tækifæri til sanna mig þegar ég er í betra formi. Að mínu mati er ég með gæðin til að vera í landsliðinu, en ég þarf aftur á móti að koma mér á betra flug og vonandi mun það skila mér inn í landsliðshópinn í framtíðinni.“

Engar viðræður farnar af stað

Samningur Andra Rúnars rennur út hjá Helsingborgs þegar tímabilinu lýkur í Svíþjóð og enn sem komið er hafa engar viðræður átt sér stað um framlengingu á samningi hans.

„Nei, það hefur ekki komið til tals, en ég reyni að hugsa lítið um það því það getur tekið athyglina frá fótboltanum og það hjálpar mér ekki inn á vellinum,” sagði Andri aðspurður um endurnýjun á samningi.

Öll 16 mörk Andra á síðustu leiktíð:

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir