Fylgstu með okkur:

Fréttir

Ánægður að vera kom­inn aft­ur til Ítalíu

Birkir sat fyr­ir svör­um frétta­manna í gær í fyrsta skipti sem leikmaður Brescia.

Mynd/[email protected]bresciaingolchannel

Birkir Bjarnason, sem samdi á dögunum við ítalska A-deildarliðið Brescia, sat fyr­ir svör­um frétta­manna í gær í fyrsta skipti sem leikmaður liðsins.

Birkir er kominn aftur til Ítalíu þar sem hann þekkir vel til, eftir að hafa leikið áður með liðunum Pescara og Sampdoria þar í landi. Birkir var um tíma orðaður við Genoa en það fór svo að lok­um að hann gekk til liðs við Brescia og samdi við liðið til eins og hálfs árs.

„Viðræðurnar hófust fyrir aðeins nokkrum dögum og ég er mjög ánægður með að vera kominn aftur til Ítalíu og til Brescia,“ sagði Birkir á blaðamannafundinum.

Brescia situr um þessar mundir í 18. sæti ítölsku A-deild­arinnar og er aðeins stig­i frá því að kom­ast úr fallsæti. Birkir telur að liðið spili góðan fótbolta til að geta forðast fall.

„Það eru hæfileikaríkir leikmenn hérna og að mínu mati spilar liðið góðan fótbolta til að geta forðast fall. Ég hef leikið í sex löndum á ferlinum, svo ég hef fjölbreytta reynslu og mér finnst ég hafa þroskast sem leikmaður síðan ég spilaði síðast á Ítalíu.“

Birkir er heillaður af ástríðunni á Ítalíu en segir að það sé mikilvægt að fara safna stigum sem allra fyrst. Næsti leikur Brescia í deildinni er annað kvöld gegn AC Milan á heimavelli.

„Það sem heillar mig mest við ítalskan fótbolta er hversu ástríðufullir allir eru. Það er gríðarlega mik­il­vægt að fara að safna stig­um sem allra fyrst, því við viljum ekki sitja eftir í baráttunni og fara út í ein­hverja ör­vænt­ingu. Að mínu mati getur liðið gert góða hluti gegn AC Milan.“

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir