Fylgstu með okkur:

Fréttir

Alfreð býst við að vera áfram hjá Augsburg

Alfreð reikn­ar með að vera áfram hjá Augsburg á næstu leiktíð.

ÍV/Getty

Landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason reikn­ar með að vera áfram hjá þýska liðinu Augsburg á næstu leiktíð. Þessu greindi hann frá í viðtali við miðilinn Schwaebische í Þýskalandi.

„Ég á eitt ár eftir af samningi mínum við Augsburg og ég býst við því að spila með félaginu á næstu leiktíð,“ segir Alfreð.

Keppnistímabilið hjá Alfreð í vetur var erfitt hvað varðar meiðsli en hann missti af 16 leikjum vegna þeirra í þýsku Bundesligunni. Alfreð stóð sig aftur á móti mjög vel í þeim leikjum sem hann spilaði. Hann gerði tíu mörk og þar af tvær þrennur í aðeins 18 leikjum í þýsku Bundesligunni á leiktíðinni.

Alfreð gekkst undir aðgerð á hásin í síðasta mánuði sem varð þess valdandi að hann missti af síðustu leikjum Augsburg á leiktíðinni.

Alfreð var á dögunum í endurhæfingu í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en hann er nú mættur til Íslands þar sem hann mun vinna náið með sjúkraþjálfurum, áður en hann heldur út til Þýskalands í lok þessa mánaðar. Í næsta mánuði stefnir Alfreð á að byrja hlaupa á ný, í júlímánuði að vera kominn á fulla ferð á æfingum og í ágúst tilbúinn í næsta tímabil.

Lítur upp til Claudio Pizarro

Alfreð segir í sama viðtali að hann ætli sér að spila sem atvinnumaður í fótbolta eins lengi og hægt er þrátt fyrir langa meiðslasögu í gegnum tíðina. Hann tekur Claudio Pizarro, leikmann Werder Bremen, sér til fyrirmyndar í leikstíl sínum. Pizarro verður á þessu ári 41 árs og hefur nýlega framlengt samning sinn við Werder Bremen.

„Á mínum atvinnumannaferli hef ég ekki verið að reiða mig áfram á miklum sprengikrafti eða snerpu í mínum leikstíl. Ég spila frekar eins og Claudio Pizarro, sem ég tek mér til fyrirmyndar varðandi leikstíl minn.“

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir