Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Albert skoraði fyrir varalið AZ Alkmaar – Guðlaugur Victor lék í slæmu tapi

Albert Guðmundsson skoraði úr vítaspyrnu fyrir varalið AZ Alkmaar í kvöld

Albert Guðmundsson var í kvöld í byrjunarliði varaliðs AZ Alkmaar sem spilar í hollensku fyrstu deildinni. Liðið mætti Excelsior en með þeim spilar Elías Már Ómarsson.

Elías byrjaði leikinn á bekknum en hann kom inná sem varamaður þegar tæpar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum. Excelsior vann leikinn með tveimur mörkum gegn einu. Albert, sem lék allan leikinn, minnkaði muninn fyrir AZ með marki úr vítaspyrnu á 69. mínútu. Varaliðið hjá Alkmaar er með eitt stig í 15. sæti eftir tvær umferðir en Excelsior er með fullt hús stiga í fjórða sæti.

Albert hefur fengið fá tækifæri hjá aðalliði AZ Alkmaar á leiktíðinni. Hann hefur aðeins komið við sögu í einum leik í fyrstu þremur umferðunum í hollensku úrvalsdeildinni en þá kom hann inná sem varamaður á 79. mínútu gegn Waalwijk í 2-0 sigri AZ.

Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn í liði Darmstadt er liðið mætti Osnabruk í annari deildinni í Þýskalandi. Osnabruk sigraði leikinn með fjórum mörkum gegn engu. Guðlaugur Victor og félagar sáu aldrei til sólar en þeir áttu aðeins eitt skot á rammann í leiknum. Darmstadt er í 12 sæti með fjögur stig eftir þrjár umferðir.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun