Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Albert og Hólmar Örn komu við sögu

Albert og Hólmar Örn komu báðir við sögu með liðum sínum í dag. 

Albert Guðmundsson, leikmaður AZ Alkmaar í Hollandi, og Hólmar Örn Eyjólfsson, leikmaður Levski Sofia í Búlgaríu, komu báðir við sögu með liðum sínum í dag.

Albert byrjaði á varamannabekk AZ Alkmaar þegar liðið tapaði fyrir Vitesse, 2-1, á útivelli í hollensku úrvalsdeildinni í dag. Albert kom inn af varamannabekknum á 78. mínútu en tókst ekki að koma boltanum í mark andstæðinganna.

AZ Alkmaar náði að komast yfir í leiknum með marki úr vítaspyrnu á 33. mínútu en heimamenn í Vitesse jöfnuðu metin í uppbótartímanum í fyrri hálfleik.

Flest stefndi í jafntefli í leiknum en allt kom fyrir ekki. Í staðinn fékk Vitesse vítaspyrnu á sjöttu mínútu uppbótartímas sem Matus Bero tók og skoraði. Lokatölur því 2-1 fyrir Vitesse.

Í úrvalsdeildinni í Búlgaríu í dag kom Hólmar Örn inn á sem varamaður með liði sínu Levksi Sofia sem gerði 2-2 jafntefli við grannaliðið PFC CSKA-Sofia.

Hólmar Örn kom inn á 86. mínútu leiksins og aðeins tveimur mínútum síðar fékk lið hans á sig jöfnunarmark. Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli.

Fyrir tveimur vikum spilaði Hólmar Örn sinn fyrsta leik fyrir Levksi Sofia síðan í lok október á síðasta ári, þegar lið hans sigraði Vitosha Bistritsa, en hann hafði átt við erfið meiðsli eftir að hafa slitið krossband í hné.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun