Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Álasund vann Íslend­inga­slag­inn í lokaumferðinni

Hólmbert Aron lagði upp eitt mark fyrir Álasund í lokaumferð norsku 1. deildarinnar í dag.

Mynd/VG

Álasund hafði betur gegn Sandefjord á heimavelli í Íslendingaslag í lokaumferð norsku 1. deildarinnar í dag, 3-1, en alls léku þrír Íslend­ing­ar í leikn­um.

Daníel Leó Grétarsson lék allan leikinn fyrir Álasund og Hólmbert Aron Friðjónsson lék síðasta hálftímann með liðinu. Davíð Kristján Ólafsson sat á varamannabekk liðsins og Aron Elís Þrándarson var ekki í leikmannahópnum.

Emil Pálsson spilaði allan leikinn fyrir Sandefjord en Viðar Ari Jónsson var fjarri góðu gamni og var ekki í leik­manna­hóp liðsins.

William Albin Kurtovic kom Sandefjord yfir á 21. mínútu en Torbjørn Agdestein jafnaði metin fyrir Álasund aðeins þremur mínútum síðar og staðan í hálfleik var 1-1.

Niklas Castro kom Álasundi aftur yfir um miðbik síðari hálfleiks og Torbjørn Agdestein skoraði svo þriðja mark liðsins á lokakafla leiksins eftir undirbúning Hólmberts Arons.

Álasund og Sandefjord voru fyrir leikinn bæði búin að tryggja sér sæti í norsku úrvalsdeildinni að ári. Álasund endar í efsta sæti deildarinnar með 79 stig á meðan Sandefjord endar í öðru sætinu með 65 stig.

Þá var Aron Sigurðarson ekki með Start vegna meiðsla þegar liðið sigraði Notodden, 2-0. Jóhannes Harðarson stýrir Start sem endar í þriðja sæti deildarinnar með 62 og kemur til með að fara í umspil um þriðja og síðasta lausa sætið í norsku úrvalsdeildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun