Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Álasund stigi frá efstu deild

Álasund er einu stigi frá því að gull­tryggja sér sæti í norsku úrvalsdeildinni.

Mynd/Álasund

Íslendingaliðið Álasund er nú einu stigi frá því að tryggja sér sæti í norsku úrvalsdeildinni að ári eftir 3-1 sigur sinn á Raufoss á heimavelli í dag.

Daníel Leó Grétarsson og Aron Elís Þrándarson léku allan leikinn fyrir Álasund en Davíð Kristján Ólafsson sat á varamannabekknum. Hólmbert Aron Friðjónsson var fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Álasund skoraði tvö mörk snemma í fyrri hálfleik og komst í 3-0 áður en Raufoss náði að klóra í bakkann. Lokatölur urðu 3-1 fyrir Álasundi.

Álasund er á toppi deildarinnar eftir 26 leiki með 65 stig, tíu stigum á undan Start, sem er í öðru sætinu. Álasund fær því tækifæri í næsta leik til að gulltryggja sér úrvalsdeildarsæti.

Viðar Ari Jónsson var í byrjunarliði Sandefjord og lék allan leikinn þegar liðið fór með 3-2 útisigur af hólmi gegn Kongsvinger.

Sandefjord skoraði tvö mörk snemma leiks en Kongsvinger komst aftur í leikinn með tveimur mörkum sitt hvorum megin við hálfleikinn. Enric Vallés skoraði síðan fyrir Sandefjord á 61. mínútu og það reyndist sigurmarkið. Emil Pálsson, sem er að komast af stað eftir meiðsli, kom inn af bekknum hjá Sandefjord á 88. mínútu.

Sandefjord er í 3. sæti með 54 stig, einu stigi á eftir Start.

Í norsku úrvalsdeildinni hjá Íslendingaliðunum Lillestrøm og Viking var fátt um fína drætti í leikjum þeirra.

Arnór Smárason lék allan leikinn fyrir Lillestrøm sem gerði markalaust jafntefli við Bodø/Glimt og Samúel Kári Friðjónsson spilaði allan tímann með Viking sem gerði markalaust jafntefli við Stabæk.

Lillestrøm er í 10. sæti með 27 stig eftir 24 umferðir á meðan Viking er í 5. sæti með 37 stig.

Dagur Dan Þórhallsson spilaði allan leikinn fyrir Kvik Halden sem vann 3-0 útisigur gegn Egersunds í norsku 2. deildinni. Atli Barkarson kom þá inn á sem varamaður á 78. mínútu með Fredrikstad er liðið tapaði 1-0 fyrir Moss.

Kvik Halden er í öðru sæti deildarinnar með 52 stig og Fredrikstad er í sætinu fyrir neðan, með 46 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun