Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Álasund með sigur – Hjörtur í tapliði

Íslendingaliðið Álasund vann sigur í Noregi og þá var Hjörtur Hermannsson í tapliði í Danmörku.

Aron Elís. Mynd/Aftenposten

Íslendingaliðið Álasund vann 0-1 útisigur á Notodden í norsku B-deildinni í dag.

Þrír Íslendingar spiluðu með Álasund í leiknum í dag. Daníel Leó Grétarsson var í vörninni, Aron Elís Þrándarsons á miðjunni og Hólmbert Aron Friðjónsson var fremsti maður.

Álasund skoraði á 52. mínútu og það mark dugði til sigurs í dag sem þýðir að liðið náði fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar með alls 13 stig. Liðið hefur unnið fjóra leiki og gert eitt jafntefli í fyrstu fimm umferðunum. Í síðasta leik liðsins náðu allir þrír Íslendingarnir að skora í 4-2 sigri á Skeid.

Hjörtur spilaði í tapi Brøndby 

Hjörtur Hermannson lék allan tímann í vörn Brøndby sem tók á móti Esbjerg í efra umspili dönsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Brøndby fékk á 37. mínútu leiksins vítaspyrnu en vítaskyttan Kamil Wilczek brenndi af á punktinum.

Ekki var skorað í leiknum alveg þar til á 83. mínútu leiksins þegar Adrien Petre skoraði sigurmarkið fyrir Esbjerg.

Brøndby dettur niður í 5. sæti efra umspilsins eftir tapið í dag en fjórir leikir eru eftir. Þá spilar Brøndby í úrslitum dönsku bikarkeppninnar þann 17. maí nk.

Bjarni Mark lék í tapi í sænsku B-deildinni

Bjarni Mark Antonsson og félagar hans í IK Brage lutu í lægri hlut gegn Varbergs BoIS í toppbaráttuslag í sænsku B-deildinni í dag. Bjarni hefur spilað allar mínúturnar með liðinu í fyrstu fimm umferðunum en Brage er sem stendur í 2. sæti deildarinnar með 10 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun