Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Álasund á miklu flugi í norsku B-deildinni

Íslendingaliðið Álasund á góðri leið upp í úrvalsdeildina í Noregi

Íslendingaliðið Álasund er í miklu stuði í norsku B-deildinni en liðið vann sinn sjötta sigurleik í röð í dag er það fór með 2-1 sigur af hólmi gegn Sandnes Ulf á útivelli. Aron Elís Þrándarson og Daníel Leó Grétarsson spiluðu allan leikinn fyrir Álasund og þá var Hólmbert Aron Friðjónsson einnig í byrjunarliðinu en var tekinn af velli á 69. mínútu en í hans stað kom Torbjorn Agdestein sem skoraði svo sigurmarkið.

Davíð Kristján Ólafsson kom inná í liði Álasund þegar um korter var eftir af leiknum. Álasund er í góðri stöðu í deildinni en liðið er með 9 stiga forystu á Sandefjord þegar ellefu umferðir eru eftir. Stutt er í næsta leik hjá Álasund en liðið leikur gegn Hamerkameratene á miðvikudaginn kemur.

Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn með Krasnodar í 1-1 jafntefli í toppslag gegn Lokomotiv Moskvu. Krasnodar er á toppi deildarinnar með jafnmörg stig og Lokomotiv og Zenit frá Pétursborg. Spartak Moskva og Rostov eiga leik til góða og geta bæði jafnað toppliðin að stigum.

Jón Daði Böðvarsson sat allan tíman á varamannabekk Millwall sem gerði 1-1 jafntefli gegn Middlesbrough í ensku B-deildinni. Millwall er með 8 stig eftir fimm leiki. Næsti leikur liðsins í deildinni er gegn Hull að viku liðinni en á þriðjudaginn mæta þeir Oxford United í enska deildabikarnum.

Diego Jóhannesson lék síðustu 35 mínúturnar í 1-1 jafntefli gegn Lugo í spænsku B-deildinni. Lugo jafnaði metin á 90. mínútu eftir að Real Oviedo komst yfir strax á 5. mínútu. Real Oviedo er í 15. sæti með eitt stig eftir tvær umferðir.

Aron Bjarnason spilaði síðustu 10 mínúturnar í 2-0 tapi Upjest gegn Varda SE í ungversku deildinni. Upjest er með 4 stig eftir fjórar umferðir í 6. sæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun