Fylgstu með okkur:

Fréttir

AIK greiðir Kolbeini 700 þúsund fyrir hvert mark

Kolbeinn Sigþórsson er sagður fá um 700 þúsund íslenskra króna fyrir hvert mark sem hann skorar fyrir AIK.

ÍV/Getty

Kolbeinn Sigþórsson samdi á dögunum við sænska úrvalsdeildarfélagið AIK, sem er ríkjandi meistari í deildinni. Hann kom til félagsins á frjálsri sölu og gerði samning út árið 2021 eftir að hafa komist að samkomulagi um riftun á samningi við franska liðið Nantes í síðasta mánuði.

Kolbeinn hefur lítið spilað síðustu ár vegna þrálátra hnémeiðsla og það verður því gaman að fylgjast með næstu skrefum hans á ferlinum með nýju félagi.

Kolbeinn var á mála hjá Nantes í þrjú og hálft ár og lék aðeins fjóra leiki með félaginu á síðustu tveimur leiktíðum. Fyrir þremur leiktíðum lék hann 29 leiki sem var hans fyrsta tímabil með Nantes og í þeim leikjum skoraði hann fjögur mörk.

Um haustið 2016 fór Kolbeinn á láni til tyrkneska félagsins Galatasaray með möguleika á endanlegum kaupum en hann náði hins vegar aldrei að leika fyrir félagið því hann varð fyrir alvarlegum hnémeiðslum með íslenska landsliðinu nokkrum dögum eftir félagaskiptin.

Tykneskir fjölmiðlar hafa fylgst með hverju fótspori Kolbeins í gegnum í tíðina og skrifa meðal annars um félagaskipti hans til AIK.

Greint er frá því í Tyrklandi að greiðslur Kolbeins hjá AIK styðjist mest megnis við árangur félagsins og frammistöður hans í leikjum með liðinu. CNN þar í landi greinir meðal annars frá þessu.

Fram kemur á nokkrum miðlum í Tyrklandi að AIK muni greiða Kolbeini fimm þúsund evrur, jafnvirði nærri 700 þúsund íslenskra króna, fyrir hvert mark sem hann skorar fyrir félagið.

Kolbeinn var með um 150 þúsund evrur í vikulaun hjá Nantes í Frakklandi og hann er þar af leiðandi að taka á sig verulega launalækkun með AIK, en hann fékk aftur á móti væna upphæð fyrir að rifta samningi sínum í Frakklandi. Það var fullyrt að hann hafi fengið á bilinu 1,7 til 2 milljónir evra í aðra hönd fyrir það.

Fréttir um Kolbein í tyrkneskum fjölmiðlum í dag. Skjáskot/Samsett

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir