Fylgstu með okkur:

Fréttir

Áhugi frá Kýpur á Kolbeini

Knattspyrnufélagið Pafos í Kýpur hyggst freista þess að fá Kolbein í sínar raðir í sumar. 

Mynd/Nyheteromodag

Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður sænska liðsins AIK og íslenska landsliðsins, er undir smásjánni hjá kýpverska félaginu Pafos, ef marka má fregnir úr fjölmiðlum í Kýpur í þessari viku.

Greint er frá því á fótboltavefsíðunni Kerkida.net og fleiri miðlum í Kýpur að Pafos hyggst freista þess að fá Kolbein í sínar raðir í sumar.

Það gæti reynst torsótt fyrir Pafos að fá Kolbein til félagsins í sumar, því hann gerði samning við ríkjandi meistara AIK í Svíþjóð út árið 2021 í síðastliðnum marsmánuði. Stuttu áður en hann gekk í raðir AIK hafði hann náð samkomulagi um riftun á samningi við franska félagið Nantes.

Kolbeinn sagði í viðtali í Svíþjóð í síðasta mánuði að honum hafi staðið til boða að spila með liði í Asíu en hafi hafnað þeim möguleika og ákveðið að spila áfram í Evrópu. „Ég er á besta aldri til að geta enn spilað á svipuðum vettvangi og fyrir nokkrum árum. Ég tel þetta vera skref í rétta átt og gott tækifæri til komast á þann stað sem ég vil vera á,“ sagði Kolbeinn.

Íslendingavaktin greindi frá því á sínum tíma að greiðslur Kolbeins hjá AIK styðjist mest megnis við árangur félagsins og frammistöður hans í leikjum með liðinu. Sagt var að AIK greiði Kolbeini fimm þúsund evrur, jafnvirði nærri 700 þúsund íslenskra króna, fyrir hvert mark sem hann skorar fyrir félagið.

Kolbeinn var ekki leikfær þegar hann samdi við AIK í mars en hann kom sér aftur á ferðina og í byrjun maí lék hann sinn fyrsta leik fyrir félagið þegar hann kom inn á sem varamaður og spilaði í 25. mínútur í sigri gegn Eskilstuna. Fljótlega eftir þann leik meiddist Kolbeinn á fæti sem varð til þess að hann missti af fjórum leikjum í röð.

Kolbeinn sneri aftur og kom við sögu í sigri AIK á Hammarby í byrjun þessa mánaðar en þá lék hann í tuttugu mínútur. Nokkkrum dögum áður var hann óvænt valinn í íslenska landsliðshópinn sem lék fyrir nokkrum vikum við Albaníu og Tyrkland á Laugardalsvelli í undankeppni Evrópumótsins 2020. Kolbeinn kom inn á sem varamaður í báðum landsleikjunum og lék 53 mínútur samtals.

Sænska úrvalsdeildin er aftur farin af stað eftir nokkurra vikna hlé og AIK spilaði í gærkvöld við Norrköping. AIK tapaði leiknum 2-0 og Kolbeinn átti að vera í leikmannahópi AIK í leiknum en forfallaðist á síðustu stundu, að öllum líkindum vegna meiðsla af einhverju tagi.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir