Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Ævin­týra­leg­ur viðsnún­ing­ur Start

Start, með Aron Sigurðarson innanborðs, leikur í norsku úrvalsdeildinni á næsta ári eftir að hafa snúið blaðinu hressi­lega við.

Mynd/Start

Start leikur í norsku úrvalsdeildinni á næsta ári eftir að hafa snúið blaðinu hressi­lega við í kvöld gegn Lillestrøm í seinni leik liðanna í úr­slit­um um laust sæti í deild þeirra bestu.

Aron Sigurðarson lék allan leikinn fyrir Start og Arnór Smárason kom inn á sem varamaður hjá Lillestrøm á 85. mínútu. Leikið var á heimavelli Lillestrøm en fyrri leiknum lauk með 2-1 sigri Start.

Leikmenn Lillestrøm léku á als oddi í byrjun leiks og liðinu tókst að skora heil fjögur mörk á fyrsta klukkutímanum.

Það var ekki fyrr en fimmtán mín­út­ur voru til leiks­loka þegar Martin Ramsland tók yfir leikinn. Hann skoraði hvorki fleiri né færri en þrjú mörk fyrir Start á sex mín­útna kafla á lokakaflanum.

Leiknum lauk með 4-3 sigri Lillestrøm en viðsnún­ing­ur­inn er hreint magnaður og Start vinnur einvígið með útivallarmörkum, en samanlögð úrslit urðu 5-5. Glæsilegur árangur Start undir stjórn Jóhannesar Harðarsonar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun